Hvað er eiginlega markþjálfun?
Markþjálfun hefur notið sívaxandi vinsælda undanfarin ár en margir velta enn fyrir sér hvað felst nákvæmlega í þessu hugtaki og þessu fyrirbæri.
Sjálf kynntist ég fyrst markþjálfun þegar ég stóð á krossgötum í starfi og einkalífi. Ég vissi að ég vildi og þurfti breytingar en skynjaði ekki eða skildi hvað ég vildi, hvað átti að breytast eða hvernig leiðin í átt að breytingum átti að líta út. Markþjálfun hefur verið mér algjör lífsbjörg því hún hefur krafið mig um djúpa sjálfskoðun, sjálfsþekkingu og hjálpað mér að skapa sjálfri mér þær aðstæður sem ég nýt. Ég hef öðlast meiri skilning á sjálfi mér, væntingum mínum, þrám, styrkleikum og gildum og fengið tæki og tól til þess að taka stórar ákvarðanir og stíga umbreytandi skref, bæði í mínu persónulega lífi og í starfi.
Tilgangur markþjálfunar er að einstaklingar upplifi ríkari tilgang, lífshamingju, sigra og sátt. Markþjálfun er vettvangur visku, virðingar & trausts og miðar að því að markþjálfi styðji marksækjanda í að taka fulla ábyrgð og stjórn á eigin lífi og líðan með sjálfsrækt að leiðarljósi. Þú ákveður umræðuefnið og hvernig árangur lítur út í þínum huga. Mitt hlutverk er að fylgja þér á þínu ferðalagi. Ég held utan um ferlið og beini þér að kjarna málsins með beinum tjáskiptum og kraftmiklum spurningum og legg þannig grunn að rými fyrir viðhorfsbreytingar, sjálfsskoðun og vöxt.
Markþjálfun á rætur að rekja í virtar fræðigreinar, m.a. jákvæða sálfræði, leiðtogafræði, stefnumótun, íþróttafræði, hugræna atferlismeðferð (HAM), geðlækningar, sálgæslu, tilvistarsálfræði, uppeldisfræði og NLP.
Hvernig virkar markþjálfun?
Markþjálfi beitir kerfisbundnum samtalsaðferðum og aðstoðar markþega að stytta leiðina að settu marki. Í markþjálfun felst samvinna markþjálfa og markþega þar sem rýkir traust og gagnkvæm virðing. Í markþjálfun er unnið með styrkleika markþegans til að ýta undir áhuga hans og ástríðu. Markþjálfinn er sérþjálfaður fagmaður sem hjálpar markþeganum að skoða lífið sitt á nýjan hátt, skoða styrkleika sína, væntingar og þrár, setja sér markmið og fylgja þeim eftir með aðgerðum. Í markþjálfun gerum við ráð fyrir því að markþeginn sé skapandi, úrræðagóður og heill og við gerum alltaf ráð fyrir því að fólk vilji og hafi getu til þess að vaxa og blómstra. Hlutverk markþjálfans er að styðja þig í að finna hugrekki til að sækja þína drauma og framtíðarsýn.
Markþjálfun er leið til að:
Kanna möguleika og tækifæri
Finna og forgangsraða markmiðum
Rýna í hindranir, óleyst verk og ókláruð mál
Hámarka árangur, gæðastundir, hamingju og lífsgleði
Losa sig við óþarfa og óþægindi úr lífinu
Hverju má búast við í markþjálfun?
Í upphafi markþjálfunarsambandsins er lögð áhersla á að skilja betur hvar þú stendur núna og hvert þú raunverulega vilt stefna. Markþjálfinn leiðir samtalið með kraftmiklum spurningum til þess að hjálpa þér að líta djúpt innávið, þar sem þú færð tækifæri til að skoða drauma þína, ótta, áskoranir og möguleika í öruggu rými. Sjálf upplifði ég svo sterkt að markþjálfunin hjálpaði mér að sjá tækifærin sem ég hafði áður ekki tekið eftir og öðlast kjarkinn til að grípa þau.
Algengt er að hver tími sé um 45-60 mínútur og ferlið getur varið frá nokkrum vikum upp í nokkra mánuði, allt eftir þínum þörfum og markmiðum.
Helstu aðferðir markþjálfunar
Markþjálfun styðst við ýmsar aðferðir sem hjálpa einstaklingnum að finna sínar eigin lausnir. Þetta getur verið eitthvað breytilegt eftir bakgrunni, styrkleikum og aðferðafræði markþjálfans, en helstu aðferðir markþjálfunar eru:
Kraftmiklar spurningar: Opnar spurningar sem hjálpa þér að kafa djúpt og sjá nýjar leiðir.
Virk hlustun: Markþjálfinn er fyllilega til staðar og hlustar með fullri athygli til að skilja stöðu þína og upplifun betur.
Speglun: Markþjálfinn endurspeglar orð og hugsanir sem þú hefur tjáð, sem hjálpar þér að sjá skýrari mynd og ná enn dýpri skilningi á eigin hugsunum, tilfinningum og aðstæðum.
Að sjá árangur fyrir sér: Aðferð þar sem þú ímyndar þér framtíðina eins og þú óskar að hún verði, stígur inn í þann veruleika og leyfir þér að vera á þeim stað og upplifa þær hugsanir og tilfinningar sem framtíðinni fylgja.
Markmiðasetning: Skýr og mælanleg markmið sett til þess að tryggja raunverulegar breytingar og framfarir, í þína þágu.
Hver er ávinningurinn af markþjálfun?
Ávinningurinn af markþjálfun er bæði persónulegur og faglegur. Þú munt líklega upplifa:
Aukið sjálfstraust og betri sjálfsþekkingu
Skýrari framtíðarsýn og sterkari fókus
Betri ákvarðanatöku og meiri kjarki til að taka næstu skref
Minni streitu og aukna vellíðan í starfi og einkalífi
Styrk til að takast á við breytingar og hindranir með jákvæðu hugarfari
Fyrir hverja er markþjálfun?
Markþjálfun er fyrir öll þau sem vilja auka ástríðu, árangur og afköst.
Markþjálfun hentar öllum sem eru tilbúin að stíga skref í átt að breytingum og vexti, hvort sem er í persónulegu lífi eða starfi. Hvort sem þú ert stjórnandi, starfsmaður, sjálfstætt starfandi, nemi eða stendur á persónulegum tímamótum, getur markþjálfun verið lykillinn að því að skapa lífið sem þú raunverulega þráir.
Ef þú ert að íhuga markþjálfun mæli ég með að þú leitir til markþjálfa sem hefur viðurkennda menntun og vottun, til dæmis frá International Coaching Federation (ICF).
Sjálf hef ég séð hvernig markþjálfun getur umbreytt lífi fólks – og ég trúi því staðfastlega að hún geti hjálpað þér að taka fyrstu skrefin í átt að lífinu sem þú vilt lifa.