Þakklæti - af hverju skiptir það máli?
Þakklæti er það að upplifa og tjá það sem maður er þakklátur fyrir í lífinu og undirstrika það svo með því að gefa sér tíma til að tjá og lýsa þakklæti sínu gagnvart öðrum.
Þau sem ástunda þakklæti upplifa jákvæðari tilfinningar, lifa við betri heilsu, takast betur á við streitu og byggja almennt upp sterkari sambönd. Rannsóknir í jákvæðri sálfræði sýna að það sem við vekjum athygli í lífinu vex og dafnar og þegar við leggjum okkur fram um að koma á hverjum degi auga á eitthvað sem við getum verið þakklát fyrir, þá fer heilinn smám saman að veita góðum hlutum meiri athygli.
Þakklæti er einnig bjargráð á erfiðum stundum. Þegar við erum í aðstæðum sem við kannski ráðum lítið við, vekja með okkur erfiðar tilfinningar og við eigum erfitt með að sjá í land… einmitt þá er þakklæti mikilvægast. Ef við getum fundið þakklætið á erfiðu stundunum, þá er líklegra að við komumst í gegnum erfiðleikana og náum að koma sterk út úr þeim.
Kostir þess að ástunda þakklæti
Það að ástunda þakklæti og geta séð það góða í kringum sig hefur ýmsa kosti í för með sér.
Meðal annars þessa:
Betri svefn:
Áður en þú leggst á koddann skaltu taka þér nokkrar mínútur í að hugsa um allt það góða í lífi þínu. Þá ferð þú rólegri og sáttari inn í svefnin.
Betri líkamleg heilsa:
Lægri blóðþrýstingur og bætt ónæmiskerfi eru meðal líkamlegra áhrifa þess að lifa þakklátu lífi.
Betri andleg heilsa:
Þakklæti ýtir undir vellíðan og dregur úr vanlíðan. Þakklæti eykur einnig seiglu.
Aukinn viljastyrkur:
Þau sem ástunda þakklæti hafa betri innsýn í hvað skiptir þau raunverulega máli í lífinu og því fylgir aukin sjálfsstjórn og forgangsröðun.
Meira sjálfstraust:
Með því að ástunda þakklæti og horfa á það jákvæða í lífinu, þá fjölgar jákvæðum hugsunum og tilfinningum í eigin garð.
Sterkari sambönd:
Það að kunna að segja ‘takk’ og sýna öðrum að við kunnum að meta fólkið í kringum okkur að það sem það gerir, það styrkir tengl við maka, fjölskyldu, vini eða vinnufélaga.
Aukin hamingja:
Þau sem ná að tileinka sér þakklæti í lífi og starfi eru almennt sáttari, glaðari, þolinmóðari, skilningsríkari og eiga auðveldara með að sjá það góða í lífinu. Það ýtir undir lífshamingju og gleði.
Meiri orka:
Neikvæðni dregur okkur niður. Hún getur étið okkur að innan og tekið yfir lífið. Hún er orkufrek og tímafrek. Með því að nýta þakklæti sem verkfæri til að auka jákvæðni í eigin lífi og sem æfingu í að koma betur auga á hið góða og gleðiríka, þá öðlumst við meiri orku.
Minni streita:
Stór hluti streitu í okkar daglega lífi kemur frá því að gera gagnslausustu tilfinningarnar - sektarkennd og áhyggjur. Þau sem ástunda þakklæti í daglegu lífi finna mörg fyrir því að ýmislegt sem áður var streituvaldandi verður kraftlaust og hættir að hafa áhrif.
Lengra líf:
Þau sem ná að tileinka sér þakklæti í daglegu lífi lifa að meðaltali 7 árum lengur.