Eitruð jákvæðini á vinnustað
Eitruð jákvæðni er óhófleg og árangurslaus ofuralhæfing á jákvæðni, gleði og hamingju í öllum aðstæðum. Hún ýtir undir afneitun og bælingu raunverulegra tilfinningaupplifana starfsfólks. Þar sem eitruð jákvæðni viðgengst er dregið úr alvarleika neikvæðra upplifana og lítið gert úr og dregið úr áhyggjum, erfiðleikum og neikvæðum tilfinningum og upplifunum starfsfólks. Fyrir vikið upplifir starfsfólk að þeirra upplifun sé röng, þeirra tilfinningar eigi ekki rétt á sér og að ekki sé hlustað á þeirra skoðanir varðandi það sem betur má fara.
Kostir jákvæðni á vinnustaðnum
Góð og uppbyggileg vinnustaðamenning er grunnur að vellíðan í starfi. Jákvæð vinnustaðamenning getur haft mikil áhrif á starfsánægju, helgun og þar af leiðandi betri frammistöðu fyrirtækja og stofnana. Jákvæð menning á vinnustað spilar stærstan þátt í því að halda í gott starfsfólk og er mikilvægur drifkraftur í nýsköpun, framsækni og árangri fyrirtækja. Jákvætt viðhorf og afstaða gerir okkur auðveldara fyrir að takast á við áskoranir, leysa úr ágreiningi og setja markmið.
Kostir jákvæðrar vinnustaðamenningar eru fjölmargir:
Ýtir undir þáttöku starfsfólks á vinnustaðnum
Eykur sköpunargleði og lausnamiðaða hugsun
Bætir andlega og líkamlega líðan
Styrkir teymi
Laðar að hæft starfsfólk
Eykur framleiðni og árangur
Hvenær verður jákvæðni eitruð?
Þó að það sé almennt talið gagnlegt að hafa jákvætt viðhorf snýst eitruð jákvæðni um að viðhalda ávallt jákvæðu hugarfari burtséð frá þeim flóknu og tilfinningalega erfiðu aðstæðum sem starfsfólk eða fyrirtæki finnur sig í. Jákvæðni verður eitruð þegar ofuráhersla er lögð á jákvæðni, óeðlilega hamingju og bjartsýni í aðstæðum sem eru krefjandi og erfiðar. Þetta leiðir af sér afneitun á eigin mannlegu tilfinningaupplifun, óöryggi og vanmati á aðstæðum. Eitruð jákvæðni verður til þess að starfsfólk bælir niður tilfinningar sem eru mikilvægar og eðlilegar vegna þess að þær passa ekki inn í ‘jákvæða umhverfið’ á vinnustaðnum.
Eitruð jákvæðni brýst út á ýmsan hátt hjá okkur sjálfum eða öðrum og getur verið rótgróin í vinnustaðamenningunni.
Ofuráhersla á að ‘halda í gleðina’, sama hvað
Að þylja upp ‘jákvæðar tilvitnanir´í erfiðum aðstæðum
Smánun þeirra sem sem finna fyrir neikvæðum tilfinningum
Gera lítið úr neikvæðum upplifunum fólks (t.d. ‘þetta er nú ekki svo slæmt’, ‘hann er alltaf svo neikvæður’)
Neita að hlusta á tilfinningar og upplifun sem ekki passar við ‘jákvæðu menninguna’
Felum raunverulegar tilfinningar
Hunsum eigin vandamál
Fáum samviskubit yfir því að vera reið eða leið
Hvernig brjótumst út úr eitraðri jákvæðni?
Það er ýmislegt sem við getum gert til þess að brjóta neikvæðan og niðurbrjótandi vítahring eitraðrar jákvæðni. Til þess þurfum við að taka meðvitaða ákvörðun um að við ætlum ekki að taka þátt í henni lengur og við ætlum ekki að leyfa eitraðri jákvæðni annarra að hafa áhrif á skynjun okkar, upplifun og skilning á eigin tilfinningum og aðstæðum. Það sem við getum gert er til dæmis að í staðinn fyrir að segja og hugsa:
‘Horfum á það jákvæða’
‘Það er ekki í boði að gera mistök’
‘Það gæti verið verra’
‘Horfum alltaf á björtu hliðarnar’
Segjum við:
‘Það er í lagi að líða stundum illa’
‘Í mistökum felst tækifæri til vaxtar’
‘Stundum upplifum við erfiða hluti. Hvað get ég gert til að hjálpa?’
‘Það getur verið erfitt að sjá það góða í þessum aðstæðum, en við skulum reyna að læra af þeim’
Ábyrgð stjórnenda
Til að losna við eitraða jákvæðni á vinnustað þarf að skapa umhverfi þar sem eðlilegar og mannlegar tilfinningar eru viðurkenndar og tekist er á við þær. Hér gegna stjórnendur mikilvægu hlutverki og það sem þeir geta gert til að brjótast út úr eitraðri jákvæðni og byggja upp umhverfi þar sem neikvæðar tilfinningar og upplifanir eru líka mikilvægar og viðurkenndar er til dæmis að:
Viðurkenna og taka mark á tilfinningum starfsfólks
Hvetja til opinna og heiðarlegra samskipta
Skapa umhverfi þar sem sálrænt öryggi ríkir
Finna jafnvægi bjartsýni og raunsæis
Bjóða upp á úrræði sem styðja við tilfinningalega vellíðan
Sýna heilbrigða forystu í verki
Skilja muninn á kvörtunum og uppbyggilegri gagnrýni
Fagna litlum sigrum án þess að líta fram hjá stærri vandamálum
Gefa fólki val um hvort það vill taka þátt í ‘jákvæðum’ verkefnum og viðburðum
Hvetja starfsfólk til að finna sína leið í átt að sinni jákvæðni, bjartsýni og drifkrafti
Þegar stjórnendur ná að skapa umhverfi þar sem tilfinningar eru virtar og mark á þeim tekið, þá getur starfsfólk farið að brjótast út úr viðjum eitraðrar jákvæðni og stigið inn í einlæga jákvæðni og farið að byggja upp menningu sem einkennist af einlægleika, stuðningi, heiðarleika og vexti. Í þannig umhverfi er hlustað á tilfinningar og upplifanir starfsfólks, brugðist við þeim og lærdómurinn sem af því hlýst nýttur til vaxtar og árangurs.